Rótarýlundurinn

fimmtudagur, 15. mars 1990

Svala Árnadóttir/Margrét Kristjánsdóttir

Trjálundur í landi Mosfellsbæjar sem ræktaður hefur verið upp frá auðum mel og er nú orðinn að dágóðum skógi.



Árið 1990 var Rótarýklúbbi Mosfellssveitar úthlutað landspildu af fyrirhuguðu almennu útivistarsvæði í landi Mosfellsbæjar, til skógræktar og uppgræðslu. Þar er nú vaxinn dágóður skógur með skjólgóðum lundum og nestisaðstöðu. Lundurinn er merktur Rótarýklúbbnum, en öllum opinn til afnota og yndisauka.

Aðdragandi þessa verkefnis var för Vigfúsar Aðalsteinssonar og konu hans, Svölu Árnadóttur og Eiríks Hans Sigurðssonar og konu hans Sigrúnar Árnadóttur á umdæmisþing á Akureyri. Þar fóru þau í vettvangsferð og var m.a. sýndur lundur sem Rkl. Akureyrar hafði tekið í fóstur. Þeim þótti þetta svo merkilegt og gaman, að ákveðið var að bera hugmyndina upp við félaga Rkl. Mosfellssveitar sem tóku hugmyndinni vel.

Talsmaður verkefnisins var þáverandi forseti klúbbsins, Vigfús Aðalsteinsson, en margir aðrir komu  þar að verki. Auk fyrrnefndra hjóna, sem unnu ötullega að uppgræðslu örfoka svæðis, er rétt að nefna Guðmund Á. Bang og Hafberg Þórisson.


Samningurinn um fóstur þessarar landspildu var gerður til 25 ára, en klúbburinn hefur farið fram á að annast lundinn áfram og heldur þar tvo fundi á ári, í ágúst og maí. Þá er unnið að grisjun, hreinsun og bætingu aðstöðu til útivistar og haldin dáyndis grillveisla.

Rótarýlundurinn okkar er innan bæjarmarka Mosfellsbæjar, stendur við Skarhólabraut og er merktur með myndarlegu skilti.