Rótarýlundurinn

fimmtudagur, 24. október 2019

Alfreð S. Erlingsson

Greinin birtist í bæjarblaðinu Mosfellingi þann 24. október 2019.

Rótarýlundurinn.
Vetrarstarf Rótarýklúbbs Mosfellssveitar hófst að venju í trjálundi klúbbsins. Félagar mæta með maka og börn, grilla og hafa gaman.
Það var árið 1990 þegar klúbburinn fékk stóra landspildu við Skarhólabraut rétt fyrir utan Hafravatnsveg til trjáræktar. Landið var hrjóstrugt, móar, melar og grjót. Strax var hafist handa við að ræka upp landið og gróðursetja tré og runna af ýmsum gerðum á hverju ári. Á vorin var mætt í Rótarýlundinn og tekið til hendinni, gróðursettar nýjar plöntur og áburður borinn á.
Gróðurinn hefur dafnað vel og nú tæpum 30 árum síðar snúast vorverkin aðallega um að snyrta og klippa til þær plöntur sem hafa aflagast eftir veturinn. Fyrir nokkrum árum var sett upp skilti og merki Rótarýklúbbs Mosfellssveitar við innkeyrslu inn á svæðið. Í sumar voru settir niður tveir glæsilegir trébekkir ásamt einu borði, veglegir hlutir sem smíðaðir voru hjá Ásgarði. Nú er þessi landspilda sem áður var ekkert nema móar og melar orðin að skógi vaxinni vin við veginn.
Rótarýlundurinn er opinn öllum Mosellingum og hvetjum við alla sem áhuga hafa á útiveru að kíkja í lundinn með nesti og njóta kyrrðarinnar sem þar er.

Félagi í R.kl. Mosfellssveitar, Alfreð S. Erlingsson