Rótarý styrkir reiðnámskeið

laugardagur, 5. desember 2020

Elísabet S. Ólafsdóttir

Rótarýklúbbur Mosfellssveitar styrkir reiðnámskeið fyrir fatlaða sem hestamannafélagið Hörður býður upp á

Rótarýklúbbur Mosfellssveitar styrkti á dögunum reiðnámskeið fyrir fatlaða sem hestamannafélagið Hörður býður upp á.
Styrkur frá Rótarýklúbbi Mosfellssveitar fyrir járningar á skólahrossin nam 180 þúsund krónum og styrkur frá Verkefnasjóði Rótarý á Íslandi fyrir fóðri nam 180 þúsund krónum.
Fræðslunefnd fatlaðra í Hestamannafélaginu Herði hefur séð um rekstur á reiðskóla fyrir fatlaða og fólk með þroskahömlun frá árinu 2010, en Hörður er fyrsta hestamannafélagið sem hefur boðið upp á slík námskeið. Þetta starf var upphaflega frumkvöðlastarf tveggja kvenna í Mosfellsbæ nokkrum árum áður.
Í reiðskólanum er boðið upp á námskeið fyrir fatlaða einstaklinga og fólk með þroskahömlun á öllum aldri. Mjög góð aðstaða er fyrir fatlaða hjá hestamannafélaginu, góð aðkoma í reiðhöll, lyfta og sérútbúnir hnakkar með bakstuðningi. Ekki má gleyma fallegu og einstöku útivistarsvæði.
Fræðslunefndin hefur staðið straum af öllum rekstrarkostnaði við 5-6 hross á ári þ.m.t. skeifur, undirburð og fóðrun. Án sjálfboðaliða og styrktaraðila væri ekki hægt að halda úti þessum námskeiðum á vegum Harðar. Á myndinni má sjá Þorkel Magnússon formann verkefnanefndar Rótarýklúbbsins og Elísabetu S. Ólafsdóttur forseta ásamt þátttakendum á námskeiði og aðstoðarfólki.