Rótarý - PolioPlus dagurinn

föstudagur, 28. október 2022

Rótarý er alþjóðleg hreyfing fólks úr viðskipta- og atvinnulífi og opinberri þjónustu sem stendur fyrir mannúðar- og menningarstarfi, stuðlar að sem bestu siðgæði í öllum starfsgreinum og hvetur til góðvildar og friðar í heiminum. Hreyfingin starfar í meira en 200 löndum í öllum heimsálfum. Á Íslandi eru klúbbarnir 32 og félagar 1173.

Eitt af flaggskipum Rótarýhreyfingarinnar er Rótarýsjóðurinn (e. Rotary Foundation) stofnaður árið 1928. Hlutverk sjóðsins er að fjármagna þau verkefni sem hreyfingin vinnur að í þeirri viðleitni sinni að skapa betri og friðsamari heim, með því að taka þátt í verkefni er tengjast öflun drykkjarvatns og hreinlætis,   bættri heilsu, stuðningi við grunnmenntun og baráttu gegn fátækt. Sjóðurinn er einn öflugasti hjálparsjóður heims þar sem nánast hver króna eða dollari sem gefinn er til sjóðsins rennur beint til þeirra verkefna sem honum er ætlað að sinna.

Stærsta einstaka verkefni Rótarýsjóðsins er svonefnt PolioPlus verkefni sem hófst 1985 þar sem stefnt er að útrýmingu lömunarveiki í heiminum. Rótarýhreyfingin með stuðningi Bill og Melindu Gates, hefur leitt þetta verkefni og unnið að því í nánu samstarfi við Rótarýklúbba og stjórnvöld á viðkomandi svæðum svo og Alþjóðaheilbrigðisstofnunina WHO. Fyrir hvern dollara sem rótarý leggur til PolioPlus veitir sjóður Bill og Melindu Gates tvo til sjóðsins. Þetta sýnir þeirra mikla traust til Rótarýsjóðsins.

Þegar framtakið hófst dóu þúsundir barna víða um heim af lömunarveiki og enn fleiri urði lömuð fyrir lífstíð. En með verkefninu hafði lömunarveiki verið að mestu útrýmt eða um 99,9%. Nú eru blikur á lofti og meðan eitt tilfelli greinist er hætta á ferðum. Gleðitíðindin eru þó sú að það er komið nýtt bóluefni sem farið er að nota.

Jennifer Jones, forseti Rótarýhreyfingarinnar, tilkynnti á tónlistarhátíðinni Global Citizen Festival í New York í september sl., að Rotary International hefði ákveðið að leggja 150 milljónir bandaríkjadala til viðbótar í baráttuna við að uppræta lömunarveiki í heiminum.

Hver sem er getur lagt átakinu lið með því að fara inn á rotary1360.is eða beint á endpolio.org.

Það er alltaf eitthvað um að vera hjá Rótarýhreyfingunni.

Þann 13.-18. september sl., bauð Rótarý á Íslandi, til alþjóðlegrar ráðstefnu, Rotary Action Summit. Þetta var í fyrsta sinn sem viðlíka ráðstefna er haldin af Rótarý hér á landi og var hún líka sérstaklega merkileg þar sem Jennifer Jones heimsforseti var viðstödd. Þetta er í fyrsta sinn í 100 ára sögu Rótarý sem kona er forseti. Þarna komu saman 400 rótarýfélagar víða að úr heiminum.

Í himnesku veðri þann 15. september tók Rótarýklúbbur Mosfellssveitar á móti rúmlega 40 þessara erlendu gesta í trjálundi rótarýklúbbsins við Skarhólabraut. Þar fékk hver og einn þeirra að gróðursetja tré. Það var sannarlega gaman að horfa á hópinn stoltan gróðursetja sitt tré, mynda það með sér og svæðinu í kring þannig að næst þegar þau kæmu til Íslands gætu þau leitað tréð uppi. Farið var síðan með hópinn að Reykjum þar sem þeim var sögð saga heitavatnsins sem vakti mikla athygli.

Rótarýklúbbur Mosfellssveitar fékk þessa landspildu við Skarhólabraut til afnota til trjáræktar fyrir 30 árum en þá var spildan aðeins móar og melar. Í dag er þarna skógivaxinn vin með borðum og bekkjum og hefur skógurinn verið opinn  almenningi frá árinu 2013. Fyrsti fundur hvers starfsárs klúbbsins er haldinn í trjálundinum þar sem félagar og fjölskyldur þeirra gleðjast saman.

Fjórprófið svokallaða er eins konar boðorð rótarýfélaga og hljóðar þannig: Er það satt og rétt? Er það drengilegt? Eykur það velvild og vinarhug? Er það öllum til góðs?

Það er gefandi að vera í rótarý og það er líka gaman. Þeir sem áhuga hafa á að kynna sér hreyfinguna eða vilja gerast meðlimir geta haft samband við undirritaða margretgudjons@simnet.is

Margrét Guðjónsdóttir forseti Rótarýklúbbs Mosfellssveitar.

 

Birt í Mosfellingi 27.10.2022

 

Í himnesku veðri þann 15. september tók Rótarýklúbbur Mosfellssveitar á móti rúmlega 40 erlendum gestum.